Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Check, one, two .. anybody home?

Útvarpsmenn, síhrapandi starfsgrein eða nýr vettvangur óskólagenginna fullorðinsbarna?

Svo virðist sem kröfur í vali á starfsfólki útvarpsstöðva hafi breyst allverulega undanfarin ár. Hér á árdögum útvarpsins voru hæfniskröfur þeirra sem áttu að mala yfir langbylgjuna oftar en ekki fremur kjánalegar. Gjarnan var farið eftir landsfjórðungum þegar velja átti starfsfólk og var því skipt niður í flokka eftir framburði. Þeir sem komu að norðan voru eftirsóttastir og þar af leiðandi efstir í fæðukeðju útvörpunar, ef svo má að orði komast. Vottur af harðmæli var merki um tign og fágun.

Ef eitthvað mark er að taka á vali útvarpsstöðvanna nú til dags kemur það greinilega fram að harðmæli er munaðarvara sem fyrirfinnst ekki lengur og það sama virðist einnig gilda um skólapróf. Það er spurning hvort ráðningastjórinn sitji hugsi við skrifborðið sitt á meðan heilaskertir umsækjendurnir rembast við að koma út úr sér heilstæðum setningum. Sá sem svo getur ælt út úr sér lengstu setningunni (sem ég geri ráð fyrir að sé þá svona 5 - 7 orð) er ráðinn.

Einhver þyrfti að taka sig til og benda útvarpsmönnum á að ef maður kann ekki orðatiltækið er best að reyna ekkert að koma því út úr sér. Hvaða heilvita maður lætur út úr sér svona setningar? "Heyrðu, þá kom sko pabbi í bátinn", "Ég bölvaði honum með sandöskri" og "ég beit bara í súrt epli þegar ég sá að þetta var vitlaust". Einn útvarpsmaður lét þetta út úr sér um daginn: "Fólk sem býr í steinhúsi á ekki að kasta glerjum".Shocking

Ein og ein mistök eiga kannski rétt á sér, en þegar þetta er orðið daglegur atburður er spurning að snúa sér að einhverju öðru.

Annað sem útvarpsmenn eiga til er að rökræða hluti sem þeir vita ekkert um. Morgunþáttastjórnendur FM957 voru að ræða um egglos kvenna um daginn og einn útvarpsmannanna hélt því fram að konur væru með eitt egg og framleiddu ekki fleiri. Viðkomandi er þriggja barna faðir! Í morgun voru þau svo að tala um 3G símakynslóðina og komust að þeirri niðurstöðu að 3G símar væru hjálpartæki fyrir heyrnarlausa og þar af leiðandi myndu þau ekki vilja kaupa slíkan síma.

Ég hef aðeins eitt að segja. Hvernig væri að aka seglum eftir vindi og hleypa pabba gamla úr bátnum. Ef það virkar ekki er spurning um að leggja árar í bát, svona áður en glerin brjóta steinhúsið! Það eru aðrar leiðir til að mata krókinn en að bölva fólki með sandöskrum!

Kveðja: Reykjalín sem hvolfir öllu á botninn áður en öllu er á botninn hvolft!  


Verði ljós, svo varð allt dimmt!

Maðurinn skarar fram úr á öllum sviðum! Hann keyrir um á hraðskreiðum aksturstækjum samsettum af því besta af mannlegu hugviti. Hann þeytir járnrusli út í geiminn og hefur þann eiginleika að geta horft í augu nágranna síns þótt himinn og haf skilji þá að.


Merkasta uppgötvun mannsins er þó vafalaust tungumálið og það sem getan til tjáningar hefur gefið af sér. Þróun málsins og þess sem af tungumáli leiðir er í raun grundvöllur allrar menningar og framþróunar samfélagsins sem við búum við í dag. Notkun tjáningarmáta er og hefur í aldanna rás verið listgrein útaf fyrir sig. 

Hómer kvað um afdrif Rómar í kviðum sínum.  Shakespeare var með ys og þys þar sem múgurinn grét og hló á víxl, Laxness lét heimsljós sitt skína gegnum sérvisku sem og Sölku Völku á meðan Dan Brown gróf undan stoðum Kaþólsku Kirkjunnar með orðaleik að vopni.

Það virðist þó vera sem að nú, þegar þróun mannkyns er í fullum blóma, að tungumálið sé að lúta í lægra fyrir eigin afkvæmum. Með auknum hraða og sameinaðra samfélagi virðist sem  fólk sé hætt að gefa sér tíma til að setja saman heilstæðar setningar. Reglur um punktanotkun, stóran og lítinn staf og jafnvel stafsetningu eru sniðgengnar og tilgangslausar skammstafanir, styttingar og furðulegar þýðingar komnar í staðin.

"Og við hlógum vel og lengi" er skipt út fyrir LMAO, "Kem aftur að vörmu spori" verður að BRB og í stað þess að bölva á góðri og gildri íslensku eru kjánalegar þýðingar á borð við "fokk" og "sjitt" farnar að skreyta orðabækur nútímans. Mannleg samskipti fara ekki lengur fram augliti til auglitis heldur senda menn textaskilaboð, blogga og kommenta.

Svo virðist sem ungviðið stefni á að taka þetta skrefinu lengra og í stað þess að segja "hæ" og "bæ" sem var farið að teljast nokkuð algengur talsmáti láta þau sér nægja að segja "bleeh" eða í verstu tilfellum einfaldlega "Bé", sama hvort um komu eða brottför er að ræða.

Hver veit? Innan nokkurra ára gætum við verið farin að gelta á hvert annað þegar við reiðumst, mjálma þegar okkur vantar eitthvað og baula þegar við viljum kútinn!

G. Reykjalin sem þykir skondið að líta yfir stafsetningatillögur orðapúkans á þessum texta!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband