Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Útrásarbloggari .. hvar liggur ábyrgðin?

Ég er útrásarvíkingur. Kannski ekki í þeim skilningi að ég skuldsetti heimalandið með því að taka við peningum frá útlendingum og festa þá í miður skynsömum eignum, taka síðan við meiri peningum út á þær eignir og skilja svo ekkert í því að ég á ekki fyrir afborgunum á öll þessi lán.

Nei útrásin mín felst í lesendum. Einhvertíma í kringum síðustu færslu jókst neflinlega lesendahópurinn minn um 200%. Svo virðist sem ég hafi keypt athygli út á blogg sem ég átti þegar til í bankanum þegar aukningin átti sér stað. Vextir þessara athygliskaupa eru svo að skila sér nú þegar takmarkað stafaval er til staðar.

 Stóra spurningin er auðvitað hverjum ég á í raun að kenna um þetta. Ég gæti farið út í það að benda á að mbl.is hefur ekki sett neinar reglur um það að ég megi ekki taka of djúpt í árinni og því hafi ég í raun engar reglur brotið. Það sé því í raun mbl.is að kenna að hafa ekki haft hemil á græðgi minni. Eftir að hafa reynt að koma til móts við þessar skuldbindingar reyndi ég hvað ég gat að stækka við orðaforðann og vanda bloggunina betur sem endaði í svo mikilli bloggsnilli að lesendahópurinn stækkaði enn meir.

Ég sé fyrir mér að mbl.is kenni þá vefstjóranum sínum um að hafa jafnvel ýtt undir þessa athyglisaukningu með því að tengja bloggið mitt við fréttaveituna á forsíðu moggabloggsins. Í örvæntingu sinni kemur vefstjórinn fram í spjallþætti þar sem hann segir að mbl.is muni ekki koma til móts við pirraða lesendur.

Embættishræddir lesendur taka sig þá væntanlega til og frysta Morgunblaðið í frystikistunni heima hjá sér sem hefur mjög víðtæk áhrif á útgáfu morgunblaðsins og verður til þess að stjórn mbl.is tekur yfir bloggið mitt og gerir það ríkisrekið.

Fjölmiðlaeftirlitið er sett sem stjórnandi bloggsins á meðan allir aðilar kenna hver öðrum um og hvetja hvern annan til að axla ábyrgð. Á meðan kem ég mér vel fyrir á vísisblogginu sem er margrómað sem bloggparadís og í ljós kemur að ég var með mörg blogg í gangi sem öll byggðu á stoðum upphaflega moggabloggsins. Öll bloggin af moggablogginu hverfa svo í gegnum bakleiðir og ég ber fyrir mig bloggleynd þegar ég er spurður um hvarfið. Ég sver þess síðan eið að koma aldrei aftur inn á moggabloggið og lifi hamingjusamur það sem eftir er.

...

Annaðhvort það eða þá ég drullast bara til að vera duglegri að blogga..

Gunnar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband