Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Mánudagur, 24. nóvember 2008
No lack of creativity, lack of effort!
Daginn kæri lesandi (já, eintala!).
Þorsti getur verið bæði góð og slæm frumþörf. Það má í raun segja að þorstinn sé forsenda þess að einstaklingur taki sig til og veiti líkamanum þá lífsnauðsyn sem vatn er. Í raun að þorsti sé þá verkfæri sem heldur lífinu í fólki.
En þessi góða hlið þorsta er háð því að vatnið sé innan seilingar og að einstaklingurinn hafi bæði getuna og viljann til að svala þorstanum. Ef að hinsvegar eitt af þessu þrennu er ekki til staðar getur þorsti orðið að einhverju slæmu í því skyni að hann kallar fram óþægilega tilfinningu. Einstaklingnum finnst hann jafnvel innilokaður og vellíðan hans ógnað.
Ef orsökin er sú að vatn sé ekki til staðar er alltaf hægt að kenna utanaðkomandi kröftum um. Jafnvel einhverjum óhagganlegum breytum eins og veðráttu eða samfélagssmíð. Ef getan er það sem hindrar svölunina er hægt að færa óþægindin og reiðina frá þorstanum og yfir á þriðja aðila. Handalaus maður gæti þannig borið fyrir sig að sá sem svipti hann höndunum bæri sökina en ekki einstaklingurinn sjálfur.
Málið vandast hinsvegar þegar bæði getan og vatnið er til staðar en viljinn og drifkrafturinn í það að fá sér að drekka lætur ekki á sér kræla. Hverjum er þar um að kenna? Getur maður þá komið sökinni að einhverju leiti af sjálfum sér? Getur maður grafið upp einhverjar utanaðkomandi breytur sem valda því að letin verður manni að falli?
Shakespeare sagði: "Be not afraid of greatness. Some are born great, some achieve greatness, and some have greatness thrust upon 'em." .. Kannski að sumir bíði alla sína æfi eftir að síðasti liðurinn hjá Shakespeare komi eins og stormsveipur og verði til þess að vatnssopinn leki sjálfur ofan í glasið.
G. Reykjalin
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Og enn hann heldur áfram..
Það var sem ég spáði.. Ég á mér EINN dyggan lesanda.
Framtakssemi vikunnar var ekki meiri en svo að mér tókst að gera við svalahurðina en lét svo þar við liggja. Ég fór hinsvegar í gegnum toppsætið á DVD safninu mínu og prufukeyrði einnig nýja diska sem og að horfa á Freddy Mercury og þá drottningarfélaga lifandi á sviði á Wembley frá árinu 1986.
Ég er smám saman að uppgötva einhverskonar nostalgískan unað af því að horfa á myndir sem eiga tengingu við miðaldir. Braveheart var á áhorfslistanum um helgina sem og Hringadrottinssaga. Ég veit ekki hvað það er en það er ekki laust við að maður fyllist eldmóði af að horfa á svona myndir. Alveg er ég viss um að ég hafi eitthvað þekkt til íslensku raunvíkinganna úr íslendingasögunum í einhverju fyrra lífi.
G. Reykjalin
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Já fínt, já sæll, það er komin færsla!
Eftir að hafa uppgötvað að nauðsynleg heilastarfsemi til að spila tölvuleikjaval helgarinnar var nákvæmlega engin, hef ég fundið fyrir brennandi þörf á beitingu sköpunar og framleiðni. Ég hef því ákveðið að leita á náðir skáldagyðjunnar svona í byrjun viku og sjá hvort að ég uppsker ekki einhvern ávöxt sem er haldbærari en rassafarið í sófanum heima.
Ég get ekki sagt að ég leggi að jafnaði mikla vinnu í efni sem er ætlað á netið en í dag eyddi ég bróðurpartinum af níunda klukkutíma dagsins í að finna eitthvað sniðugt til að skrifa. Uppskeran var eitt lítið og sætt fúkyrði sem á að hrinda enskum forvera sínum úr sæti svona á meðan Ísland á í milliríkjadeilu við tjallana handan hafsins.
Ég hvet þig, lesandi góður (og já ég geri fastlega ráð fyrir að það séu ekki mikið fleiri en einn lesandi að þessari færslu) að nota fúkyrðið á einhverjum tímapunkti í þessari viku og sjá hversu vel það á við í íslensku athafna-, fjölskyldu- eða einsemdarlífi.
Og hér kemur þá Fúkyrðið.
# Blástu það úr bossa þínum! #
Kv. Gunnar
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar