Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 7. maí 2009
Sköpunarþörfin framleiðnin og truflanirnar
Ég tel að fólk vanmeti þörfina til tjáningar.
Tjáning er form af sköpun. Með tjáningu skapar þú sjálfan þig í augum annarra og með tjáningu verður þú til sem persóna í samfélagi annarra.
En það fyndna við það er að í gegnum ákveðna sköpun annarra verður þú lítið annað en áhorfandi og óvirkur þátttakandi í tjáningu og skilningi annarrar manneskju. Rithöfundar geta sett lesendur sína í ákveðin spor og þannig valið þá leið sem einstaklingurinn upplifir tilveruna sem rithöfundurinn skapar. Sjónvarpsþáttahöfundurinn ákveður hvernig áhorfandinn upplifir viðfangsefnið, ekki bara huglægt heldur einnig sjónrænt!
Hvernig myndum við upplifa ástina ef ekki hefði verið fyrir frönsku skáldin á uppreisnar tímanum? Hvernig myndum við upplifa dauðann ef höfundar biblíunnar hefðu aldrei verið við völd?
Við ákvörðum reynslu útfrá því sem við upplifum.Ef einhver les Hamlet þá þykist hann reyndari en náungi sinn en í raun hefur hann einungis upplifað ákvarðanatregðu og eftirsjá í gegnum augu annars. Hversu langt teygjum við mörk upplifunar? Þarf ég að hafa verið uppi á tímum Leonardo Da Vinci til að skila uppgötvanir hans eða nægir mér að hafa lesið sögubækurnar um afrek hans?
Þegar við stöndum við dauðans dyr leiðist hugurinn að því sem tekur við. Fyrir þá sem trúa á áframhaldandi tilveru stendur hugsanlega til boða að ákvarða eigið tilverustig. Myndum við velja það tilverustig sem liggur fyrir okkur á örlagadeginum eða myndum við velja það stig þar sem okkur leið best?
Værum við tvítug,ókvænt og lifðum lífinu eins og það væri enginn morgundagur eða værum við ábyrg gamalmenni sem ættum fjöldann allan af ættingjum sem felldu tár í marga mánuði eftir fráfall okkar?
Sköpun og reynsla haldast hönd í hönd. Við gefum af okkur reynslu, hluti og líf. Það sem við slikjum eftir þegar okkar dagur er er runninn er okkar sköpun, okkar túlkun á raunveruleikanum.
Eina spurningin er, verður það tilverunnar virði eða var þessi dvöl okkar einungis upplifun þeirra sem létu hlutina gerast?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Útrásarbloggari .. hvar liggur ábyrgðin?
Ég er útrásarvíkingur. Kannski ekki í þeim skilningi að ég skuldsetti heimalandið með því að taka við peningum frá útlendingum og festa þá í miður skynsömum eignum, taka síðan við meiri peningum út á þær eignir og skilja svo ekkert í því að ég á ekki fyrir afborgunum á öll þessi lán.
Nei útrásin mín felst í lesendum. Einhvertíma í kringum síðustu færslu jókst neflinlega lesendahópurinn minn um 200%. Svo virðist sem ég hafi keypt athygli út á blogg sem ég átti þegar til í bankanum þegar aukningin átti sér stað. Vextir þessara athygliskaupa eru svo að skila sér nú þegar takmarkað stafaval er til staðar.
Stóra spurningin er auðvitað hverjum ég á í raun að kenna um þetta. Ég gæti farið út í það að benda á að mbl.is hefur ekki sett neinar reglur um það að ég megi ekki taka of djúpt í árinni og því hafi ég í raun engar reglur brotið. Það sé því í raun mbl.is að kenna að hafa ekki haft hemil á græðgi minni. Eftir að hafa reynt að koma til móts við þessar skuldbindingar reyndi ég hvað ég gat að stækka við orðaforðann og vanda bloggunina betur sem endaði í svo mikilli bloggsnilli að lesendahópurinn stækkaði enn meir.
Ég sé fyrir mér að mbl.is kenni þá vefstjóranum sínum um að hafa jafnvel ýtt undir þessa athyglisaukningu með því að tengja bloggið mitt við fréttaveituna á forsíðu moggabloggsins. Í örvæntingu sinni kemur vefstjórinn fram í spjallþætti þar sem hann segir að mbl.is muni ekki koma til móts við pirraða lesendur.
Embættishræddir lesendur taka sig þá væntanlega til og frysta Morgunblaðið í frystikistunni heima hjá sér sem hefur mjög víðtæk áhrif á útgáfu morgunblaðsins og verður til þess að stjórn mbl.is tekur yfir bloggið mitt og gerir það ríkisrekið.
Fjölmiðlaeftirlitið er sett sem stjórnandi bloggsins á meðan allir aðilar kenna hver öðrum um og hvetja hvern annan til að axla ábyrgð. Á meðan kem ég mér vel fyrir á vísisblogginu sem er margrómað sem bloggparadís og í ljós kemur að ég var með mörg blogg í gangi sem öll byggðu á stoðum upphaflega moggabloggsins. Öll bloggin af moggablogginu hverfa svo í gegnum bakleiðir og ég ber fyrir mig bloggleynd þegar ég er spurður um hvarfið. Ég sver þess síðan eið að koma aldrei aftur inn á moggabloggið og lifi hamingjusamur það sem eftir er.
...
Annaðhvort það eða þá ég drullast bara til að vera duglegri að blogga..
Gunnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 24. nóvember 2008
No lack of creativity, lack of effort!
Daginn kæri lesandi (já, eintala!).
Þorsti getur verið bæði góð og slæm frumþörf. Það má í raun segja að þorstinn sé forsenda þess að einstaklingur taki sig til og veiti líkamanum þá lífsnauðsyn sem vatn er. Í raun að þorsti sé þá verkfæri sem heldur lífinu í fólki.
En þessi góða hlið þorsta er háð því að vatnið sé innan seilingar og að einstaklingurinn hafi bæði getuna og viljann til að svala þorstanum. Ef að hinsvegar eitt af þessu þrennu er ekki til staðar getur þorsti orðið að einhverju slæmu í því skyni að hann kallar fram óþægilega tilfinningu. Einstaklingnum finnst hann jafnvel innilokaður og vellíðan hans ógnað.
Ef orsökin er sú að vatn sé ekki til staðar er alltaf hægt að kenna utanaðkomandi kröftum um. Jafnvel einhverjum óhagganlegum breytum eins og veðráttu eða samfélagssmíð. Ef getan er það sem hindrar svölunina er hægt að færa óþægindin og reiðina frá þorstanum og yfir á þriðja aðila. Handalaus maður gæti þannig borið fyrir sig að sá sem svipti hann höndunum bæri sökina en ekki einstaklingurinn sjálfur.
Málið vandast hinsvegar þegar bæði getan og vatnið er til staðar en viljinn og drifkrafturinn í það að fá sér að drekka lætur ekki á sér kræla. Hverjum er þar um að kenna? Getur maður þá komið sökinni að einhverju leiti af sjálfum sér? Getur maður grafið upp einhverjar utanaðkomandi breytur sem valda því að letin verður manni að falli?
Shakespeare sagði: "Be not afraid of greatness. Some are born great, some achieve greatness, and some have greatness thrust upon 'em." .. Kannski að sumir bíði alla sína æfi eftir að síðasti liðurinn hjá Shakespeare komi eins og stormsveipur og verði til þess að vatnssopinn leki sjálfur ofan í glasið.
G. Reykjalin
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Og enn hann heldur áfram..
Það var sem ég spáði.. Ég á mér EINN dyggan lesanda.
Framtakssemi vikunnar var ekki meiri en svo að mér tókst að gera við svalahurðina en lét svo þar við liggja. Ég fór hinsvegar í gegnum toppsætið á DVD safninu mínu og prufukeyrði einnig nýja diska sem og að horfa á Freddy Mercury og þá drottningarfélaga lifandi á sviði á Wembley frá árinu 1986.
Ég er smám saman að uppgötva einhverskonar nostalgískan unað af því að horfa á myndir sem eiga tengingu við miðaldir. Braveheart var á áhorfslistanum um helgina sem og Hringadrottinssaga. Ég veit ekki hvað það er en það er ekki laust við að maður fyllist eldmóði af að horfa á svona myndir. Alveg er ég viss um að ég hafi eitthvað þekkt til íslensku raunvíkinganna úr íslendingasögunum í einhverju fyrra lífi.
G. Reykjalin
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Já fínt, já sæll, það er komin færsla!
Eftir að hafa uppgötvað að nauðsynleg heilastarfsemi til að spila tölvuleikjaval helgarinnar var nákvæmlega engin, hef ég fundið fyrir brennandi þörf á beitingu sköpunar og framleiðni. Ég hef því ákveðið að leita á náðir skáldagyðjunnar svona í byrjun viku og sjá hvort að ég uppsker ekki einhvern ávöxt sem er haldbærari en rassafarið í sófanum heima.
Ég get ekki sagt að ég leggi að jafnaði mikla vinnu í efni sem er ætlað á netið en í dag eyddi ég bróðurpartinum af níunda klukkutíma dagsins í að finna eitthvað sniðugt til að skrifa. Uppskeran var eitt lítið og sætt fúkyrði sem á að hrinda enskum forvera sínum úr sæti svona á meðan Ísland á í milliríkjadeilu við tjallana handan hafsins.
Ég hvet þig, lesandi góður (og já ég geri fastlega ráð fyrir að það séu ekki mikið fleiri en einn lesandi að þessari færslu) að nota fúkyrðið á einhverjum tímapunkti í þessari viku og sjá hversu vel það á við í íslensku athafna-, fjölskyldu- eða einsemdarlífi.
Og hér kemur þá Fúkyrðið.
# Blástu það úr bossa þínum! #
Kv. Gunnar
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 17. september 2007
Check, one, two .. anybody home?
Útvarpsmenn, síhrapandi starfsgrein eða nýr vettvangur óskólagenginna fullorðinsbarna?
Svo virðist sem kröfur í vali á starfsfólki útvarpsstöðva hafi breyst allverulega undanfarin ár. Hér á árdögum útvarpsins voru hæfniskröfur þeirra sem áttu að mala yfir langbylgjuna oftar en ekki fremur kjánalegar. Gjarnan var farið eftir landsfjórðungum þegar velja átti starfsfólk og var því skipt niður í flokka eftir framburði. Þeir sem komu að norðan voru eftirsóttastir og þar af leiðandi efstir í fæðukeðju útvörpunar, ef svo má að orði komast. Vottur af harðmæli var merki um tign og fágun.
Ef eitthvað mark er að taka á vali útvarpsstöðvanna nú til dags kemur það greinilega fram að harðmæli er munaðarvara sem fyrirfinnst ekki lengur og það sama virðist einnig gilda um skólapróf. Það er spurning hvort ráðningastjórinn sitji hugsi við skrifborðið sitt á meðan heilaskertir umsækjendurnir rembast við að koma út úr sér heilstæðum setningum. Sá sem svo getur ælt út úr sér lengstu setningunni (sem ég geri ráð fyrir að sé þá svona 5 - 7 orð) er ráðinn.
Einhver þyrfti að taka sig til og benda útvarpsmönnum á að ef maður kann ekki orðatiltækið er best að reyna ekkert að koma því út úr sér. Hvaða heilvita maður lætur út úr sér svona setningar? "Heyrðu, þá kom sko pabbi í bátinn", "Ég bölvaði honum með sandöskri" og "ég beit bara í súrt epli þegar ég sá að þetta var vitlaust". Einn útvarpsmaður lét þetta út úr sér um daginn: "Fólk sem býr í steinhúsi á ekki að kasta glerjum".
Ein og ein mistök eiga kannski rétt á sér, en þegar þetta er orðið daglegur atburður er spurning að snúa sér að einhverju öðru.
Annað sem útvarpsmenn eiga til er að rökræða hluti sem þeir vita ekkert um. Morgunþáttastjórnendur FM957 voru að ræða um egglos kvenna um daginn og einn útvarpsmannanna hélt því fram að konur væru með eitt egg og framleiddu ekki fleiri. Viðkomandi er þriggja barna faðir! Í morgun voru þau svo að tala um 3G símakynslóðina og komust að þeirri niðurstöðu að 3G símar væru hjálpartæki fyrir heyrnarlausa og þar af leiðandi myndu þau ekki vilja kaupa slíkan síma.
Ég hef aðeins eitt að segja. Hvernig væri að aka seglum eftir vindi og hleypa pabba gamla úr bátnum. Ef það virkar ekki er spurning um að leggja árar í bát, svona áður en glerin brjóta steinhúsið! Það eru aðrar leiðir til að mata krókinn en að bölva fólki með sandöskrum!
Kveðja: Reykjalín sem hvolfir öllu á botninn áður en öllu er á botninn hvolft!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 12. september 2007
Verði ljós, svo varð allt dimmt!
Maðurinn skarar fram úr á öllum sviðum! Hann keyrir um á hraðskreiðum aksturstækjum samsettum af því besta af mannlegu hugviti. Hann þeytir járnrusli út í geiminn og hefur þann eiginleika að geta horft í augu nágranna síns þótt himinn og haf skilji þá að.
Merkasta uppgötvun mannsins er þó vafalaust tungumálið og það sem getan til tjáningar hefur gefið af sér. Þróun málsins og þess sem af tungumáli leiðir er í raun grundvöllur allrar menningar og framþróunar samfélagsins sem við búum við í dag. Notkun tjáningarmáta er og hefur í aldanna rás verið listgrein útaf fyrir sig.
Hómer kvað um afdrif Rómar í kviðum sínum. Shakespeare var með ys og þys þar sem múgurinn grét og hló á víxl, Laxness lét heimsljós sitt skína gegnum sérvisku sem og Sölku Völku á meðan Dan Brown gróf undan stoðum Kaþólsku Kirkjunnar með orðaleik að vopni.
Það virðist þó vera sem að nú, þegar þróun mannkyns er í fullum blóma, að tungumálið sé að lúta í lægra fyrir eigin afkvæmum. Með auknum hraða og sameinaðra samfélagi virðist sem fólk sé hætt að gefa sér tíma til að setja saman heilstæðar setningar. Reglur um punktanotkun, stóran og lítinn staf og jafnvel stafsetningu eru sniðgengnar og tilgangslausar skammstafanir, styttingar og furðulegar þýðingar komnar í staðin.
"Og við hlógum vel og lengi" er skipt út fyrir LMAO, "Kem aftur að vörmu spori" verður að BRB og í stað þess að bölva á góðri og gildri íslensku eru kjánalegar þýðingar á borð við "fokk" og "sjitt" farnar að skreyta orðabækur nútímans. Mannleg samskipti fara ekki lengur fram augliti til auglitis heldur senda menn textaskilaboð, blogga og kommenta.
Svo virðist sem ungviðið stefni á að taka þetta skrefinu lengra og í stað þess að segja "hæ" og "bæ" sem var farið að teljast nokkuð algengur talsmáti láta þau sér nægja að segja "bleeh" eða í verstu tilfellum einfaldlega "Bé", sama hvort um komu eða brottför er að ræða.
Hver veit? Innan nokkurra ára gætum við verið farin að gelta á hvert annað þegar við reiðumst, mjálma þegar okkur vantar eitthvað og baula þegar við viljum kútinn!
G. Reykjalin sem þykir skondið að líta yfir stafsetningatillögur orðapúkans á þessum texta!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 20. júlí 2007
Pause - Play
G. Reykjalín er í stundarfríi! Kemur öflugur inn næsta haust.. :)
Gott sumar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 23. maí 2007
Útlönd, Ölið og Elliglöp
Hæ
Þegar ég var 17 ára fór vinnan í ferð saman til Spánar. Markmið ferðarinnar var ekki markverðara en það að liggja í sólbaði, sötra drykki í háum glösum með papparegnhlífum og hafa gaman af lífinu. Með í ferðinni voru tveir félagar mínir sem fengu að fljóta með þessum annars bráðskemmtilega vinnuhópi.
Áætlanir okkar félaganna, eins og svo oft gerist hjá mönnum á þessum aldri, var hinsvegar að fá einhverja dömu með sér upp á herbergi eitthvert kvöldið, án þess að þurfa að draga upp veskið eftirá. Í þetta var lögð mikil strategía og bráðin valin af mikilli gaumgæfni.
Ég valdi mitt skotmark með tvö markmið í huga. Annarsvegar var hún vinnufélagi minn og hinsvegar var hún ríflega 10 árum eldri en ég. Ég lagði allt í þetta og passaði upp á það allt kvöldið að aldur, elli og eftirlaun bærust aldrei í tal.
Það þarf ekki að spyrja að því að morguninn eftir var ég hetja hópsins. Ég heyrði frasa eins og Hún gæti verið mamma þín, Það eru ekki allir sem veiða deit á Hrafnistu og Er þetta vinkona ömmu þinnar?.
Ég var svo staddur í vinnuferð ekki fyrir svo löngu þar sem ferðinni var heitið til Orlando. Eitthvað virðast Bandaríkjamenn virka illa á íslenskar stelpur því ég fílaði mig eins og vel skorinn strandvörð í samanburði við náhvíta, genabreytta hormónarassana á Ameríkönunum á ströndinni og svo virtist sem stelpurnar sem voru með í för væru mér fullkomlega sammála. Það sýndi sig að minnsta kosti um kvöldið þegar ég sló nýtt met hvað aldur varðaði og þurfti heldur ekki að draga upp veskið það kvöldið.
Í morgunverðarhlaðborðinu daginn eftir áttaði ég mig þó á því hve breytt staðan var þegar frá stelpnaborðinu heyrðist Oj, hann gæti verið Pabbi þinn. Þið getið ímyndað ykkur hvaða setningar fylgdu í kjölfarið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 21. maí 2007
Ný föt, gömul sósa og vinnan að baki!
Hæ
Hefðir á vinnustöðum er hlutur sem breytist eftir því hver meðalaldur vinnustaðarins er. Þegar ég var að vinna á veitingastað í Reykjavík hér fyrir nokkrum árum var hefðin sú að þegar einhver sagði upp tókum við okkur til og "busuðum" hann á síðasta vinnudaginn. Ég man að í eitt skiptið settum við aðstoðarkokkinn í kalda sturtu, við límdum miða á bakið á einum þjóninum sem hvatti fólk til að klípa í rassinn á honum og þess háttar hrekkjabrögð.
Ég var eiginlega ekki viðbúinn bréfinu sem lá á skrifborðinu mínu þegar ég mætti í vinnuna í morgun. Málið er það að útibússtjórinn var að segja starfi sínu lausu og ætlaði að fara snemma á eftirlaun. Markmiðið var að reyna að njóta lífsins með konunni áður en ellin grípur í alla taumana. Á Föstudaginn var honum svo frekar brugðið þegar ég sturtaði yfir hann gömlum sósuleifum úr eldhúsinu þar sem hann sat í glænýjum jakkafötum með starfslokasamninginn í höndunum. Það varð hans síðasta verk sem útibússtjóri að binda enda á frama minn sem skrifstofustjóra.
Ég var ekki busaður þegar ég gekk út með kassann minn núna í hádeginu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar