Sunnudagur, 13. maí 2007
Framsókn, Finnland og Færeyjar
Hæ
Það hefur alla tíð þótt mikið sport í mínum vinahópi að finna upp á hinum og þessum drykkjuleikjum til að krydda aðeins upp á næturlífið. Við stunduðum á sínum tíma leiki sem fólu í sér sannsögli, kossa og einhverja millikynja snertingu.
Einhvernvegin hefur mér alltaf fundist þessir leikir verða til þess að það renni mjög svipað hratt á menn og allir endi einhvernvegin á perunni eftir nokkrar umferðir. Með auknum aldri og fjölda trúlofunarhringja í sífelldri sókn hafa nektar og kossaleikir þurft að lúta í lægra haldi fyrir einfaldari leikjum
Við létum okkar ekki vanta í kosningaæðinu sem greip landann í gær og uppfærðum leikina yfir á umfangsefni dagsins. Við völdum okkur Eurovisionlag, létum í ljós hvaða flokk við höfðum kosið og svo í hvert skipti sem atkvæði komu inn átti hver og einn að drekka sopa fyrir hvert Eurovisionstig sem landið fékk og annan fyrir hvern þingmann sem flokkurinn fékk inn í hverri talningu.
Einhvernvegin varð leikurinn þó ekki til þess að menn héldust í hendur hvað vímu varðaði. Bróðir minn, sjálfstæðismaður mikill, gerði þau mistök að velja Serbíu sem sitt land og þjóðernissinninn ég fór edrú heim eftir árangur Íslands og Íslandshreyfingarinnar þetta skiptið!
Ég var því þó feginn morguninn eftir þegar bróðir minn hringdi í mig og sagði að hann kæmist ekki í kvöldmat þar sem ekki væri flogið til Færeyja nema annan hvern dag!
Bloggar | Breytt 14.5.2007 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Á bleikum náttslopp!
Hæ
Þegar ég var aðeins yngri var það voðalegt sport að finna sér dömu í bænum, fara með henni heim til hennar og framkvæma hluti sem ekki væru við hæfi fólks á okkar aldri. Svo þegar við höfðum bæði lokið okkur af var málið að koma sér eins fljótt og hægt var út úr íbúð dömunnar. Við félagarnir sögðum svo hvorum öðrum sögur af því þegar við stukkum af svölum á þriðju hæð, klifruðum eftir þakrennum eða þurftum að hlaupa af okkur mannýga hunda.
Ég hélt um daginn að ég gæti endurupplifað þessa gömlu daga. Reynt að kynda upp í köldum glæðum með því að gera eitthvað sem ég gerði á mínum yngri árum. Ég eldaði góða máltíð handa konunni, keypti dýrt rauðvín og við áttum yndislega kvöldstund saman. Við nutum ásta fram eftir nóttu og ljóst var að þetta yrði nótt sem ekki myndi gleymast í bráð!
Það var þó ekki fyrr en morguninn eftir sem ég gerði mér grein fyrir hvaða vitleysu ég hafði gert! Málið er neflinlega það að eftir að konan var sofnuð skellti ég á mig náttsloppnum hennar, stökk út á svalir og klifraði niður í garð. Alsæll eftir sigur kvöldsins fattaði ég að ég var lykillaus þarna í bakgarðinum. Ég ákvað þá að leggja leið mína til foreldra minna og gista í þeirra íbúð þar sem þau voru erlendis. Íbúðin var hinumegin við leikskólann í hverfinu svo ég var ekki lengi að vippa mér þangað yfir. Ég vaknaði síðan snemma og ákvað að koma við í sjoppunni á leiðinni heim.
Svipurinn á afgreiðslukonunni þegar ég gekk inn í sjoppuna hefði getað sagt mér meira en ég var reiðubúinn að heyra. Í sjónvarpinu fyrir aftan afgreiðsluborðið var þulan að lesa upp tilkynningu: "Lögreglan í Reykjavík leitar karlmanns á þrítugsaldri. Maðurinn var eingöngu klæddur bleikum náttslopp og sást síðast til hans á leikskólalóð í miðbæ Reykjarvíkur".
Það var ekki fyrr en þrír fullklæddir lögregluþjónar ruddust inn í sjoppuna að ég áttaði mig á því hvað ég hafði gert rangt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Skeggvöxturinn skiptir öllu!
Hæ
Hérna fyrir nokkrum árum státuðum við félagarnir okkur af hugrekki okkar gagnvart "kerfinu" og fannst fátt skemmtilegra en að spila aðeins með siði og venjur samfélagsins.
Eitt skiptið tók ég mig til og rembdist í fjórar vikur við að rækta skeggrót á efri vörinni á mér. Eftir allt erfiðið leit þetta út ekki ósvipað mjólkurskeggi eftir að hafa drukkið kakómalt. Af mikilli nákvæmni tók ég mig til og myndaði úr þessu þessa líka fínu "Nasistamottu" sem þó leit út fyrir að hafa verið teiknuð á með bleklausum penna.
Með stolta mottuna á efrivörinni fórum við félagarnir í hjálpartækjaverslun á hverfisgötunni og fundum einhverja safaríka þýska klámmynd. Sprengfullur af húmor tók ég mig til og kvittaði á debetkortanótuna "Adolf B. Hitler". Afgreiðslumaðurinn lét þetta ekki mikið á sig fá og sleppti okkur lausum þrátt fyrir "svindl" okkar á "kerfinu".
Mér varð það ljóst um daginn þegar ég sat berrassaður í flugstöðvarbyggingunni á JFK flugvelli að svona húmor virkar bara á ákveðnum aldri. Af eigin snilligáfu hafði ég ákveðið að sýna mig fyrir framan konuna og skrifaði "Ahmed bin Laden" á kvittunina fyrir farsímanum í fríhöfninni þar vestra. Þar sem ég hafði gleymt að raka mig þann morguninn voru fulltrúar Homeland Security ekki lengi að skella á sig latexhanskanum og kanna mínar neðribyggðir af mikilli gaumgæfni.
Ég hef ákveðið að læra af reynslunni og nú raka ég mig ávallt þegar ég ferðast til útlanda!Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Umbreyting
Hæ
Ég heiti Gunnar Reykjalín.
Ég er á þessum aldri þar sem maður skilur við ábyrgðarleysi unglingsáranna og tekst á við alvarleika fullorðinsaldursins. Líf mitt hefur umturnast frá því að fletta í gegnum ómerktan auglýsingapóst og yfir í það að taka aðeins við lokuðum umslögum með nafninu mínu á. Svo virðist sem öll þjónustufyrirtæki landsins viti hvað ég heiti og hvar ég á heima. Ég er ekki lengur skotmark tilviljanakenndrar markaðssetningar þar sem nafnlausum smápésum er dreift í mannaðar bréfalúgurnar heldur er líf mitt skoðað, metið og ég valinn sem tilvonandi viðskiptavinur.
Ég hef breyst úr því að komast upp með að gefa stjórnmálum "puttann", horfa ekki á fréttir og skipta mér ekkert af því hver er að svindla á þjóðinni hverju sinni. Núna sit ég límdur við skjáinn að reikna íbúðalán, skoða næstu greiðslur námslánanna, les framboðslista stjórnmálaflokkanna og skoða ekki lengur bara myndirnar á mbl.is
Ég .. ég er að verða gamall!
Kveðja
G. Reykjalín
Tímamót | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar